Starfsmannahandbók FMOS

Síðast breytt: 14. október 2020

Efnisyfirlit:

Listi yfir ýmis hlutverk

Hvert á ég að snúa mér?

Kennsluhættir

Námsmat og einkunnir

Nám og skipulag

Tæknimál

Húsið

Félagsmál

____________________________________

Listi yfir ýmis hlutverk:

Skólameistari: Guðrún Guðjónsdóttir, gudrun@fmos.is ; Guðbjörg Aðalbergsdóttir í leyfi

Aðstoðarskólameistari: Inga Þóra Ingadóttir, ingathora@fmos.is 

Áfangastjóri: Valgarð Már Jakobsson, valgard@fmos.is  

Deildarstjóri sérnámsbrautar: Elín Eiríksdóttir, elin@fmos.is  

Kerfisstjóri: Agnar Guðmundsson agnar@fmos.is,  863-2820

Náms-og starfsráðgjafi: Jóhann Aðalsteinn Árnason, adalsteinn@fmos.is ; Svanhildur Svavarsdóttir í leyfi  

Sálfræðingur: Júlíana Garðarsdóttir, juliana@fmos.is 

Fagstjórar: Björk Ingadóttir, bjork@fmos.is (erlend tungumál og íþróttir), Tinna Sigurjónsdóttir, tinna@fmos.is (stærðfræði, raungreinar og hestagreinar), og Þorbjörg Lilja Þórsdóttir, thorbjorg@fmos.is (félagsgreinar, íslenska og listgreinar).

Tengiliðir við nemendafélag: Björk Ingadóttir, bjork@fmos.is og Jónas Örn Helgason, jonas@fmos.is 

Forvarnarfulltrúi: Halla Heimisdóttir, halla@fmos.is

Heilsueflandi framhaldsskóli: Halla Heimisdóttir, halla@fmos.is   

Jafnréttisfulltrúar: Björk Ingadóttir, bjork@fmos.is og Elín Eiríksdóttir, elin@fmos.is

Starfsmannafélag: Halla Valgerður, hallavh@fmos.is; Ólafur Thoroddsen, olafur@fmos.is; og Þorbjörg Lilja Þórsdóttir, thorbjorg@fmos.is  

Trúnaðarmaður kennara: Þorbjörg Lilja Þórsdóttir, thorbjorg@fmos.is

Öryggistrúnaðarmaður: Björk Ingadóttir, bjork@fmos.is

Innanhússímanúmer

8500      Agla Björk Róbertsdóttir, Upplýsingamiðstöð 

8502      Guðbjörg Aðalbergsdóttir, skólameistari

8503      Guðrún Guðjónsdóttir, aðstoðarskólameistari

8504      Halla Valgerður Haraldsdóttir, fjármála- og skrifstofustjóri

8505      Ólafur Thoroddsen, umsjónarmaður fasteigna

8506      Elín Eiríksdóttir, deildarstjóri sérnámsbrautar

8507      Inga Þóra Ingadóttir, áfangastjóri

8508      Skrifstofa 3

8509      Júlíana Garðarsdóttir, sálfræðingur

8510      Jóhann Aðalsteinn Árnason, náms- og starfsráðgjafi

8511      Vinnuaðstaða kennara

8512      Fundarherbergi

8513      Kennarastofa

8514      Mötuneyti

8515      Nemendafélag

Hvert á ég að snúa mér?

Ef ég þarf að fá leyfi:
Tala við Guðbjörgu skólameistara og senda tölvupóst, gudbjorg@fmos.is, til að staðfesta dagsetningu og tíma ef um semst. Kennarar eru vinsamlegast beðnir um að haga málum þannig að fella þurfi niður sem fæstar kennslustundir. Ef leyfið varir lengur en tvo daga þurfa kennarar að útvega kennara í sinn stað og á sinn kostnað.

Ef ég er veik/veikur og get ekki mætt í vinnu:
Kennarar: Skrá veikindi í Innu; starfsmaður-skrá forföll og muna að haka við SMS takkann. Við þessa aðgerð berst nemendum, upplýsingamiðstöð og stjórnendum upplýsingarnar. Í þeim tilfellum þar sem fleiri en einn kennari kennir einum og sama hópnum og ekki þarf að fella niður kennslu þó að kennari veikist sendir viðkomandi kennari skilaboð um veikindi í tölvupósti til aðstoðarskólameistara sem skráir veikindin í Innu.
Aðrir starfsmenn: Senda tölvupóst á Guðbjörgu skólameistara.

Ef ég þarf að fá skýringu á laununum mínum:
Tala við Höllu fjármála- og skrifstofustjóra.

Ef ég þarf að ræða um ráðningarmál eða annað sem viðkemur starfinu mínu (t.d. fæðingarorlof, breyting á vinnutíma, launalaust leyfi, veikindaleyfi):
Tala við Guðbjörgu skólameistara.

Ef tölvan mín hegðar sér undarlega:
Hafa samband við Agnar kerfisstjóra, agnar@fmos.is, 863-2820.

Mig vantar aðstoð í tæknimálum, tengingarmálum o.fl. í kennslurýmunum:
Tala við Ólaf, umsjónarmann fasteigna, olafur@fmos.is, 897-7741.

Mig vantar aðstoð í Innu:
Tala við Guðrúnu aðstoðarskólameistara eða Guðbjörgu skólameistara.

Ég þarf að ræða mál einstakra nemenda (t.d. ritstuldur, erfiðleikar í samskiptum, uppákomur í tímum):
Tala við Guðrúnu aðstoðarskólameistara, gudrun@fmos.is  eða Guðbjörgu skólameistara gudbjorg@fmos.is.

Ég þarf að láta vita af nemendum yngri en 18 ára sem sinnir náminu illa:
Tala við umsjónarkennara nemandans.

Ég hef áhyggjur af einstaka nemendum, t.d. vegna mætinga eða einhvers konar erfiðleika:
Tala við Aðalstein  náms- og starfsráðgjafa, adalsteinn@fmos.is

Ég þarf að vita hvort nemandi er veikur:
Tala við Öglu í upplýsingamiðstöðinni, fmos@fmos.is, 412- 8500.

Nemendur mínir þurfa að nota tölvur í tímanum:
Senda nemendur niður í upplýsingarmiðstöðina. 

Ef mig vantar aðstoð varðandi iPada, t.d. nýtt app, aðstoð við að nýta ipadana:
Tala við upplýsingamiðstöðina.

Ég þarf að koma upplýsingum inn á vef skólans eða á Facebook síðu skólans:
Tala við Ingu Þóru, áfangastjóra, ingathora@fmos.is.

Upplýsingamiðstöð og skrifstofa

Í Upplýsingamiðstöð á 1. hæð eru bækur og önnur námsgögn sem kennarar hafa aðgang að.

Opnunartími er sem hér segir:

Mánudaga-fimmtudaga: 8:15-12:15 og 12:45-15:45
Föstudaga: 8:15-12:15 og 12:45-13:45

Starfsmaður upplýsingamiðstöðvar er Agla Björk Róbertsdóttir, fmos@fmos.is.

Hlutverk upplýsingamiðstöðvar eru m.a.:

 • almenn upplýsingagjöf
 • símvarsla
 • útgáfa vottorða um skólavist
 • skráning veikinda
 • útlán fartölva og spjaldtölva (iPada)
 • sala matarmiða
 • sala strætómiða

 

Athugið að á sumrin er opnunartími örlítið breytilegur og skrifstofan er lokuð allan júlímánuð.

Forföll kennara 

Ef kennari þarf að fá leyfi meira en tvo daga á önn, þarf hann að útvega kennara fyrir sig, á sinn kostnað. Nauðsynlegt er að semja um þetta við skólameistara fyrirfram. Í framhaldi af því er sendur tölvupóstur til skólameistara þar sem fram koma dags- og tímasetningar sem um var samið.

Ef kennari er fjarverandi sem nemur 10% af tímafjölda hvers áfanga og þarf að fella niður kennslu þarf að gera ráðstafanir til að bæta nemendum kennsluna. Kennarar eru beðnir um að tala við stjórnendur ef þeir sjá að það stefni í að 10% kennslustunda falli niður.

Veikindi og önnur forföll kennara eru tilkynnt í gegnum INNU. Farið er í „starfsmaður“ „skrá forföll“, þar þarf að velja þær dagsetningar og kennslustundir sem kennari verður fjarverandi. Við þessa aðgerð berst nemendum, upplýsingamiðstöð og stjórnendum upplýsingarnar. Mikilvægt er að skrá hvort forföll eru vegna veikinda starfsmanns eða vegna veikinda barna (veikindi barna úr kjarasamningi: Foreldri barns, yngra en 13 ára, á rétt á að vera frá vinnu vegna veikinda barna í samtals 12 vinnudaga á hverju almanaksári).

Í tilfellum þar sem tveir kennarar kenna áfanga saman og annar kennarinn er veikur tilkynnir hann það í tölvupósti til skólameistara en ekki í gegnum Innu.

Náms- og starfsráðgjöf

Náms- og starfsráðgjafi í FMOS er Jóhann Aðalsteinn Árnason, adalsteinn@fmos.is og er skrifstofa hans á 1. hæð hjá skápunum.

Opnunartímar náms- og starfsráðgjafar:

Mánudagar-miðvikudagar: 8:30-15:45

Fimmtudagar: 8:30-15:30

Föstudagar: 08:30-14:00

Námsráðgjöf FMOS er á facebook.

Nánari upplýsingar eru á vef skólans.

Sálfræðiþjónusta

Sálfræðingur FMOS er Júlíana Garðarsdóttir, juliana@fmos.is, og er skrifstofa hennar við hlið skrifstofu náms- og starfsráðgjafa. Nemendum stendur til boða að mæta í opna viðtalstíma eða bókuð viðtöl. Hér má finna nánari upplýsingar um þjónustuna.

Kennsluhættir

Kennsluhættir í FMOS einkennast af verkefnamiðuðum kennsluaðferðum og leiðsagnarmati sem fléttast saman í leiðsagnarnám.

Verkefnamiðaðar kennsluaðferðir felast í því að lítið er um beina kennslu líkt og fyrirlestra og í stað þess er virkni nemanda er í fyrirrúmi. Inn á FMOS vefnum eru ýmis gögn og umfjöllun um kennsluhætti í anda FMOS.

Kennsluáætlanir
Allar kennsluáætlanir eiga að vera komnar á kennslukerfið áður en kennsla hefst.

Spjaldtölvur

Skólinn á nokkurn fjölda af spjaldtölvum til nota í kennslustundum, spjaldtölvur (iPadar) eru geymdar í upplýsingamiðstöð og eru lánaðar þaðan.

Vettvangsferðir

Nemendur geta fengið strætómiða í upplýsingamiðstöð þegar um er að ræða ferðir á vegum skólans. Athugið að kennurum er óheimilt að taka nemendur í eigin bifreið ef þeir eru yngri en 18 ára, án skriflegs samþykkis foreldra eða forráðamanna.

Verkefnadagar í lok annar

Á verkefnadögum (um það bil tvær síðustu vikur annarinnar) vinna nemendur lokaverkefni í hverjum áfanga og sýna þá þekkingu, leikni og hæfni sem þeir hafa fengið með því að stunda námið í áföngunum. Vægi verkefnanna er yfirleitt 10-15%.

Stundataflan tekur stakkaskiptum á verkefnadögum þar sem hver áfangi er kenndur tvisvar, hálfan dag í einu. Stundatafla verkefnadaga liggur fyrir við upphaf annar og er að finna á kennslukerfi skólans auk þess sem kennarar fá hana senda í tölvupósti.

Bókalistar

Á seinni hluta hverrar annar ákveða kennarar bókalista fyrir næstu önn. Halla fjármála- og skrifstofustjóri kallar eftir bókalistum frá kennurum. Huga þarf að því hvort hafa þurfi samband við bókaforlög tímanlega til að tryggja að bækur verði fáanlegar þegar kennsla hefst. Bókaforlög bjóða gjarnan upp á kennaraeintök af námsbókum sem hægt er að óska eftir í gegnum tölvupóst.

Trúnaður

Starfsfólk í framhaldsskóla er bundið trúnaði og óheimilt er að veita persónulegar upplýsingar um nemendur skólans. Minnt er á að upplýsingar um nemendur eldri en 18 ára má ekki gefa neinum að þeim forspurðum.

Námsmat og einkunnir

Námsmat í FMOS byggir á því að nemendur fá umsagnir, ýmist munnlegar eða skriflegar. Nemendur sjá ekki hvaða tölulega einkunn er að baki hverri umsögn en mikilvægt er að kennari haldi utan um þær því í lok hvers áfanga fá nemendur tölulega einkunn í samræmi við aðalnámskrá framhaldsskóla. Kennarar miða við að skila skriflegum umsögnum til nemenda á Innu innan við viku eftir að skilafrestur rennur út.

Nánari upplýsingar á vef skólans, www.fmos.is eru einnig ýms gögn varðandi hugmyndafræði og kennsluhætti.

Skilafrestur á verkefnum

Það er hverjum kennara í sjálfsvald sett hvernig hann hagar skilafrestum verkefna. Þó ber að hafa í huga og ítreka við nemendur að þeir bera ábyrgð á því að hafa samband við kennara ef þeir missa af verkefnaskilum vegna veikinda. Nemendur geta ekki unnið upp verkefni eftir að skilafrestur er liðinn.

Miðannarmat

Nemendur fá miðannarmat í hverjum áfanga um það bil á miðri önn. Kennarar fá einn vinnudag til að skrá miðannarmat. 
Einkunnir í miðannarmati eru gefnar í bókstöfum; 

G = Frammistaða þín er góð
M = Frammistaða þín er í meðallagi
R = Frammistaða þín er óásættanleg.

Mikilvægt er að a.m.k. 35-40% af verkefnum áfangans sé lokið fyrir miðannarmat.

Lokaeinkunnir

Skrá einkunnir í Innu:
Opna áfangann, smella á "Skrá einkunnir" sem er í listanum til vinstri. Smella á "Lokaeinkunn". Fylla út í einkunnalistann fyrir alla nemendur, passa að skilja ekki eftir eyður neins staðar. Smella síðan á "Birta einkunnir" og "Vista". Umsögn er ekki gefin með lokaeinkunn.

Einkunnaskali:

Lokaeinkunnir eru gefnar í heilum tölum frá 1 til 10.

Einkunnaskali:

Einkunnin 1 táknar að 0-14% námsmarkmiða sé náð
Einkunnin 2 táknar að 15-24% námsmarkmiða sé náð
Einkunnin 3 táknar að 25-34% námsmarkmiða sé náð
Einkunnin 4 táknar að 35-44% námsmarkmiða sé náð
Einkunnin 5 táknar að 45-54% námsmarkmiða sé náð
Einkunnin 6 táknar að 55-64% námsmarkmiða sé náð
Einkunnin 7 táknar að 65-74% námsmarkmiða sé náð
Einkunnin 8 táknar að 75-84% námsmarkmiða sé náð
Einkunnin 9 táknar að 85-94% námsmarkmiða sé náð
Einkunnin 10 táknar að 95-100% námsmarkmiða sé náð

 

Staðið/Fallið:

Í áföngum þar sem nemendur fá staðið/fallið er gefið S fyrir staðið og 1 fyrir fall. Gildir þá einu hvort nemandinn hafi verið nálægt því að ná áfanganum eða ekki. Vafaatriði skal bera upp við stjórnendur.

Munið að það er mikilvægt að skrá einkunn á alla nemendur, ekki skilja eftir eyður neins staðar.

Endurtekt á útskriftarönn

Nemendur mega taka upp einn áfanga á útskriftarönn ef hann kemur í veg fyrir útskrift, en þeir þurfa að vera með 4 í einkunn í áfanganum til að eiga rétt á því. Þá útbúa kennarar verkefni sem reynir á alla þætti áfangans og nemandi hefur tvo daga til að vinna að því. Endurtektarverkefni eru unnin í samráði við stjórnendur.

Nám og skipulag

Dagatal skólaársins

Upphaf annar Upplýsingamiðstöð FMOS er opnuð fyrsta virka dag nýs árs og að loknu sumarleyfi í upphafi ágústmánaðar. Skólahald hefst með tveimur vinnudögum kennara þar sem haldnir eru fundir og undirbúningur fyrir önnina á sér stað. Upplýsingafundur fyrir nýja nemendur er fyrir skólasetningu og er í höndum 2-3 kennara. Nemendur fá stundatöflu, kynningu á skólastarfinu og kynnast skólahúsnæðinu.

Skólasetning er yfirleitt að morgni þriðja vinnudags annarinnar og í kjölfarið hefst kennsla samkvæmt stundatöflu. Áhersla er lögð á að nýta kennslustundir vel frá fyrsta degi.

Nýnemadagur er haldinn á fyrstu vikum haustannar. Kennsla fellur niður þann dag þar sem starfsfólk og eldri nemendur bregða á leik með nýnemum og bjóða þá velkomna.

Foreldrafundur er haldinn seinni part dags, eftir að kennslu lýkur á fyrstu vikum haustannar. Allir kennarar eru til viðtals en skólameistari ávarpar fundinn og foreldrar hafa tækifæri til að kynna sér starfsemi skólans.

Húsfundur er haldinn a.m.k. einu sinni á skólaári, þá koma nemendur og starfsfólks skólans saman á sal um miðjan dag í um klukkustund og ræða sameiginlega mál sem tengjast skólastarfinu.

Forvarnardagur er haldinn árlega. Þá fellur kennsla niður ýmist hálfan eða heilan dag og nemendur taka þátt í viðburðum sem hafa forvarnargildi. Skipulagning forvarnardags er í höndum forvarnarteymis skólans.

Haustfrí er yfirleitt tvo daga í október.

Þemadagar nemenda eru einn til tveir og eru þeir haldnir á vorönn, á bilinu mars til maí. Nemendafélagið skipuleggur dagskrá þemadaga í samstarfi við kennara. Hefðbundin kennsla fellur niður en kennarar sinna fjölbreyttum verkefnum í tengslum við þemadaga.

Árshátíð nemenda er haldin í samhengi við þemadag/daga. Starfsfólk er hvatt til að mæta á árshátíðina en nemendur bíða ávallt eftirvæntingarfullir eftir skemmtiatriði starfsfólks.

Dimision nemenda er haldin rétt fyrir verkefnadaga. Þá er útskriftarnemum boðið í morgunmat með starfsfólki skólans.

Jólamatur Í byrjun desember er haldinn hátíðarhádegisverður í mötuneyti skólans þar sem nemendur og starfsfólk borða saman fínni mat og jólaandinn svífur yfir vötnum.

Útskriftarathafnir eru haldnar á sal skólans. Skólameistari flytur ávarp og útskrifar nemendur. Aðstoðarskólameistari afhendir viðurkenningar fyrir námsárangur og áfangastjóri er kynnir. Nýstúdent flytur ræðu fyrir hönd útskriftarhópsins. Kennari flytur ávarp fyrir hönd starfsfólks. Tónlistaratriði eru ríkur þáttur í athöfninni sem tekur um klukkustund. Starfsfólki skólans og boðsgestum er boðið í kaffiveitingar í boði skólans að lokinni athöfn.

Eftir útskrift Að útskrift lokinni á haustönn fara kennarar í jólafrí. Að vori eru tveir vinnudagar kennara sem nýtast á margskonar hátt, til dæmis í fundarhöld eða kynningar.

Kennsla fellur niður
Gera verður ráð fyrir kennslulausum dögum á árinu vegna nýnemadags, forvarnardags, tveggja starfsdaga vegna miðannarmats og eins til tveggja þemadaga.

Inna

Inna er upplýsinga- og kennslukerfi fyrir framhaldsskóla og inniheldur upplýsingar um stóran hluta þess sem við kemur skólagöngu nemenda, t.d. persónulegar upplýsingar, námsferil, skólasókn og stundatöflu. Þar nálgast nemendur einnig kennsluáætlanir og námsefni, fylgjast með skilaboðum frá kennurum, taka kannanir og próf, sækja og skila verkefnum svo eitthvað sé nefnt.

Kennarar nota Íslykilinn eða rafræn skilríki til að fá aðgang að Innu. Stundatafla kennara birtist í Innu.

Kennarar skrá viðveru nemenda í Innu (í stundatöflu, finna tíma hjá viðkomandi hópi, Fd eða Fv) , M = mæting eða F = fjarverandi. Við þessa aðgerð berst nemendum, upplýsingamiðstöð og stjórnendum upplýsingarnar.

Ef nemandi er fjarverandi, sama hver ástæðan er, skráir kennarinn F í Innu. Skrifstofan leiðréttir það síðan ef um leyfi eða veikindi er að ræða.

Kennarar skrá miðannarmat: starfsmaður – skrá miðannarmat.

Kennarar skrá einkunnir í lok annar: starfsmaður – skrá einkunnir.

Umsjónarkennarar fylgjast með mætingu nemenda sinna og aðstoða þá við námsval í gegnum INNU.

Upplýsingar um Innu í FMOS gefur: Guðrún aðstoðarskólameistari, gudrun@fmos.is

 

Áfangalýsingar er að finna á vef skólans. Ef um nýja áfanga er að ræða eða viðamiklar breytingar á áfanga er sú vinna unnin í samráði við stjórnendur.

Viðtalstímar

Í upphafi annar velja kennarar sér viðtalstíma og láta skrifstofu vita. Inga Þóra sendir póst í upphafi annar og biður um viðtalstíma en einnig er hægt að senda henni tölvupóst: ingathora@fmos.is

Valtímabil

Valtímabil stendur yfir í eina til tvær vikur á miðri önn. Fyrir þann tíma hafa kennarar lagt fram hugmyndir að áföngum sem þeir vilja bjóða upp á næstu önn. Áfangastjóri kallar eftir hugmyndum  frá kennurum. Listi er útbúinn yfir áfanga í boði og nemendur velja um 30 einingar fyrir næstu önn og a.m.k. 10 einingar til vara. Kennarar kynna áfanga á ýmsan hátt t.d. með veggspjöldum eða með myndböndum. Umsjónarkennarar aðstoða nemendur sína við að velja og staðfesta valið þeirra.

Frágangsdagar í lok annar

Að verkefnadögum loknum ganga kennara frá námsmati nemenda og færa inn einkunnir í INNU. Kennarar sjá um frágang og varðveislu á námsgögnum úr klösum. Nemendur sjá lokaeinkunnir á Innu og samdægurs eða daginn eftir er haldin verkefnasýning þar sem nemendur geta komið og séð verkefni sín og útreikninga á lokaeinkunnum. Kennarar sem sjá um endurtektarverkefni hjá útskriftarnemendum vinna nokkrum dögum lengur en aðrir kennarar við umsjón þeirra verkefna.

Umsjónarkennarar

Hlutverk umsjónarkennara

Kennarar sem hafa áhuga á að vera umsjónarkennarar sækja um það til stjórnenda. Nemendur yngri en 18 ára hafa allir umsjónarkennara. Hlutverk umsjónarkennarans er m.a. að fylgjast með skólagöngu nemenda og veita aðstoð og leiðsögn um hvaðeina sem viðkemur námi nemenda og gengi í skólanum. Umsjónarkennarinn fylgist með ástundun nemenda, bæði mætingu og verkefnaskilum, hvetur nemendur til að stunda námið af kostgæfni og leitar leiða til aðstoða þá ef þeir þurfa. Umsjónarkennarinn er í samstarfi við námsráðgjafa og stjórnendur um lausnir fyrir nemendur sem þurfa umfangsmeiri aðstoð.

Verkefni umsjónarkennara:

 • Hitta umsjónarnemendur á fundi í upphafi annar og á umsjónarfundum í verkefnatíma aðra hvora viku.
 • Fylgjast með mætingum og verkefnavinnu.
 • Vera í sambandi við nemendur sem fara undir 80% í mætingu og/eða skila ekki verkefnum og foreldra þeirra.
 • Vera í samstarfi við námsráðgjafa og/eða stjórnendur um erfið mál.
 • Aðstoða umsjónarnemendur við val, sjá til þess að allir velji og staðfesta valið.
 • Sitja 2-3 umsjónarkennarafundi á önn.

Greitt er fyrir umsjónarvinnuna með tveimur launaþrepum.


Tengiliðir við nemendafélag NFFMOS eru Björk Ingadóttir, bjork@fmos.is og Jónas Örn Helgason, jonas@fmos.is


Faglegt samstarf kennara í FMOS

Kennarafundir eru haldnir einu sinni í mánuði á fundartíma á fimmtudögum.

Samstarf kennara á sviðum: Fundir einu sinni í mánuði. 

Þróunarverkefni: Fundir tvisvar í mánuði.

Kennarar fá senda áætlun yfir fundi annarinnar með upplýsingum um lengd funda í hverri viku til að allir viti fyrirfram hvenær lengri fundirnir eru.                                                                                                                                                                                           

Mat á gæðum kennslunnar

Lagt er mat á gæði kennslunnar í skólanum í lok hverrar annar og eru um það bil 30% kennara metnir á hverri önn. Notaðar eru tvær aðferðir við matið, ýmist rafræn könnun í Innu eða matsfundir.

Kennslumat í Innu

Um það bil 30% kennara eru valdir til að taka þátt í kennslumati á hverri önn og nemendur þeirra fá rafræna könnun í Innu til að svara.

Matsfundir

Matsfundir eru haldnir í hópum um það bil 30% kennara í lok hverrar annar. Þegar skipulag fundanna liggur fyrir fá kennarar upplýsingar um hvenær þeirra fundir verða.

Matsfundir eru haldnir með nemendum til þess að leggja mat á gæði kennslunnar í skólanum. 

Skólameistari og aðstoðarskólameistari (og námsráðgjafi í einstaka tilfellum) sjá um framkvæmd matsfundanna og dæmigerður matsfundur fer svona fram:

Stjórnendur koma inn í tímann þegar um 15-20 mínútur eru eftir af tímanum og biðja nemendur að hjálpa sér með því að taka þátt í matsfundi. Nemendur fá upplýsingar um að matsfundirnir séu hluti af sjálfsmatskerfi skólans og að tilgangurinn með þeim sé að leggja mat á gæði kennslunnar. Þeir fá upplýsingar um það að allt sem nemendur segja er skrifað niður og rætt seinna við kennarann þeirra. Síðan er fyrirkomulag fundarins útskýrt fyrir nemendum og þeir beðnir um að setjast í hring þannig að sérhver nemandi fái sæti í hringnum.

Fyrirkomulagið er þannig að fyrst er farinn einn hringur þar sem nemendur eru beðnir um að hugsa um hvað þeim finnst gott og jákvætt við kennsluna í þessum áfanga. Hver og einn nemandi fær tækifæri til að leggja sitt fram, en þeir mega segja pass eða taka undir með einhverjum sem er kominn á undan. Stjórnendur spyrja frekari spurninga ef þess er þörf og fá nemendur til að skýra betur eða koma með dæmi – eða hvað annað sem getur gefið sem bestu mynd af því sem nemendur vilja koma á framfæri. Næst er farinn annar hringur þar sem nemendur eru beðnir um að hugsa um hvort þeir vilja breyta einhverju, bæta við eða gera öðruvísi í kennslunni  í þessum áfanga og sami háttur hafður á að leita skýringa eða dæma til að málflutningur nemenda sé sem skýrastur.

Að lokum fá nemendur boð um að fara annan hring það sem þeir mega ræða um hvað sem er sem viðkemur skólastarfinu.

Eftir að kennslu lýkur á önninni boða stjórnendur kennara þeirra hópa sem tóku þátt í kennslumati eða matsfundum á fund og senda þeim niðurstöður. Þeir ræða saman um það sem kom fram í niðurstöðum kennslumatsins eða á fundunum, vekja athygli á því sem vel er gert og aðstoða kennara við að skipuleggja úrbætur ef þörf er á.

Tæknimál

Fartölvur

Fastráðnir kennarar í meira en 50% starfi fá fartölvur frá skólanum til afnota.

Kerfisstjóri setur upp aðgang að fartölvum. Mjög mikilvægt er að tölvan sé einungis notuð í verkefni sem tengjast starfinu og að starfsmaðurinn sé sá eini sem notar hana.

Tölvupóstur

Aðgangur að tölvupóstinum er í gegnum forritið Outlook, eða með aðgangi að vefpósti. Hægt er að nálgast tölvupóstinn í hvaða tæki sem er með tölvupóstfangi og lykilorði sem kerfisstjóri skólans afhendir. Ef spurt er um server er það m.outlook.com. Tölvupóstkerfi FMOS er óháð aðgangi okkar að tölvum, það er sérstakt notandanafn og lykilorð að tölvupóstkerfinu og það er kerfisstjóri skólans sem afhendir það.

Kerfið er hýst í svokallaðri Office 365/Exchange hýsingu og þarf að velja yfirleitt Exchange í símunum við uppsetning póstsins, ágætt er að googla „office 365 setup on iphone“ og fylgja traustum leiðbeiningum ef ekki heppnast að setja tölvupóstinn upp.

Alltaf er hægt að komast í tölvupóstinn með því að velja „Vefpóstur“ á vef skólans:

Kerfisstjóri mælir með að nota tölvupóstinn í gegnum póstforritið Outlook.

Tölvur í kennsluklösum

Í öllum stærri kennslustofum eru borðtölvur, með þráðlausu lyklaborði og mús. Tölvurnar eru tengdar hljóðkerfi og er hljóðstyrkurinn stilltur annars vegar með fjarstýringunni í skjávarpanum og svo í tölvunni:

Notendur skrá sig inn á tölvurnar með sama notandanafni og lykilorði og í eigin tölvur.

Kennarar hafa kerfisstjóraaðgang í tölvunum og geta því sett upp hugbúnað að vild en þó verður að gæta þess að höfundarréttur sé virtur – til dæmis með prufuútgáfum að forritum ef þau eru ekki í eigu FMOS.

Athugið að tölvurnar séu læstar í skápunum sem eru upp við vegginn, og að í stofunni sé ávallt fjarstýring fyrir skjávarpann, lyklaborð og mús. Látið kerfisstjóra, agnar@fmos.is 863-2820 eða umsjónarmann fasteigna, olafur@fmos.is 897-7741 vita ef eitthvað vantar eða ef tölvurnar virka ekki eðlilega.

Aðgangur að Apple tölvunum sem eru í FMOS er eins og staðan er núna í gegnum kerfisstjóra FMOS.

Fartölvur fyrir nemendur

Þeir nemendur sem ekki eiga fartölvur til að nota í skólanum hafa möguleika á að fá lánaðar tölvur skólans. Skilyrði er að nemandi (og forráðamaður ef nemandi er yngri en 18 ára) skrifi undir samning um að fara í einu og öllu eftir reglum um lán á fartölvum skólans. Skólinn á þó mjög fáar tölvur og því eru nemendur hvattir til að koma sjálfir með fartölvur.

Húsið

Öryggiskerfi

 • Aðgangskóði og lyklar fást hjá Umsjónarmanni fasteigna. Talnaborð öryggiskerfis er staðsett við starfsmannainngang.
 • Á virkum dögum fer öryggiskerfi sjálfkrafa af kl. 7:00 og sjálfkrafa á kl. 22:00. Sé einhver í húsinu kl. 22:00 verður viðkomandi að vera tilbúinn við talnaborðið til að slökkva á því.
 • Um helgar er kerfið ekki sjálfsvirkt og því þarf að tryggja að síðasti maður út úr húsi setji kerfið á. Við talnaborðið er dagbók sem er notuð utan hefðbundins vinnutíma. Þetta er gert til þess að þeir sem eru að fara geti séð hvort einhver sé inni. Sé strikað yfir öll nöfn er óhætt að setja kerfið á vörð.
 • Ekki þarf að hugsa um að slökkva ljós, það er sjálfvirkt.
 • Passa að það sem er opnað þarf að loka aftur. Mikilvægt að athuga glugga á kennarastofu áður en farið er út.
 • Vera viss um að hurð í starfsmannainngangi sé læst.
 • Athugið að á virkum dögum er húsið yfirfarið í lok dags þá er tryggt að allt sé lokað og læst. Sé eitthvað opnað eftir þann tíma verður að muna að loka og læsa þeirri opnun.
 • Fari öryggiskerfi á, af einhverri ástæðu, og vælur í gang skal byrja á því að slá inn kóðann sinn og slökkva. Næst skal hringja í Securitas (símanúmer er á talnaborði) og tilkynna að kerfi í FMOS hafi farið í gang og tilgreina nafn sitt.

Séu einhverjar spurningar eða eitthvað sem snýr að húsinu, tæknimálum eða húsbúnaði skal hafa samband við umsjónarmann fasteigna, olafur@fmos.is 897-7741.

Skápar

Kennarar geta fengið læsta skápa sem staðsettir eru á kennarastofunni, upplýsingamiðstöðin sér um úthlutun skápa og lykla.

Mötuneyti

Gott mötuneyti er í skólanum. Það er opið á milli kl. 8:30 - 14:30. Boðið er upp á heitan mat í hádeginu. Samlokur, boozt, grænmeti, ávextir, skyr og fleira er til sölu. Kennarar skrá vörur í þar til gerða möppu sem liggur frammi í mötuneyti og er upphæð hvers mánaðar dregin frá launum.

Matseðill er gerður einu sinni í viku og  birtur á heimasíðu og Facebook-síðu skólans. 

Kennslueldhús er í listgreinaklasanum og nýtist það vel í kennslu t.d. á sérnámsbraut og tilvalið er fyrir kennara að nýta aðstöðuna ef námsefnið býður upp á það.

Sturta fyrir starfsfólk er á kennarastofu.

Félagsmál

Kennarafélag FMOS

Hlutverk þess er að:

 • fara með málefni félagsmanna Kennarasambands Íslands er starfa við Framhaldsskólann í Mosfellsbæ, í samráði við Félag framhaldsskólakennara.
 • standa fyrir faglegri umræðu meðal kennara Framhaldsskólans í Mosfellsbæ.
 • kjósa fulltrúa á fulltrúafund Félags framhaldsskólakennara, aðalfund Félags framhaldsskólakennara og á þing Kennarasambands Íslands samkvæmt 7. og 8. gr. laga Félags framhaldsskólakennara.
 • kjósa trúnaðarmenn.
 • kjósa fulltrúa í samstarfsnefnd skólans.

 Stjórn kennarafélags FMOS og trúnaðarmaður er kosin á hverju hausti.

Kennarar eiga einn fulltrúa í skólanefnd, tvo í skólaráði og tvo-þrjá í sjálfsmatshópi sem sér um innra mat skólans. Nánari upplýsingar um hlutverk er að finna í lögum um framhaldsskóla

Kennarasamband Íslands

Félag framhaldsskólakennara er eitt af sjö aðildarfélögum Kennarasambands Íslands með um 1.800 félagsmenn. 

Hlutverk KÍ er m.a. að:

 • Gæta hagsmuna og réttinda félagsmanna,
 • fara með samningsrétt um kaup og kjör félagsmanna,
 • auka samstarf kennara og efla fag- og stéttarvitund,
 • vinna að eflingu kennaramenntunar og símenntunar/starfsþróunar félagsmanna,

Kennarar eru sérstaklega hvattir til að kynna sér Vísindasjóð og sjúkrasjóð félagsins þar sem hægt er að fá endurgreiðslu og/eða styrki af ýmsu tagi.

Mörg fagfélög eru starfandi og halda gjarnan árleg endurmenntunarnámskeið.

Siðareglur kennara

Trúnaðarmaður kennara FMOS er Þorbjörg Lilja Þórsdóttir thorbjorg@fmos.is. Hlutverk trúnaðarmanns er aðallega að fylgjast með að farið sé eftir ákvæðum kjarasamninga og að réttur starfsmanna sé í hvívetna virtur á vinnustaðnum. Hann er tengiliður stéttarfélags og vinnustaðar og starfar í þágu félagsmanna stéttarfélagsins.

Starfsmannafélag FMOS
Mánaðarlegt gjald er 1.500 krónur. Ýmsar samkomur hafa verið haldnar á vegum starfsmannafélagsins, t.d. partý, árshátíð, leikhúsferð, jólahlaðborð, jólaball fyrir börnin, óvissuferð, sumarbústaðarferð, gönguferðir og grillveislur. Allar hugmyndir að skemmtilegum atburðum eru vel séðar. SFMOS er á Facebook undir FMOS-starfsfólk.

Starfsfólk skólans hefur sótt í endurmenntun og innblástur út fyrir landsteinana.

 • Skólaheimsóknir í Boston 2011
 • Upplýsingatækniráðstefnan Bett í London 2012, 2013 og 2017
 • Skólaheimsóknir í Finnlandi 2014
 • Ráðstefna í Genf 2014
 • Skólaheimsóknir í Bretlandi 2016
 • Ráðstefna í Boston 2017
 • Ráðstefna í London 2017
 • Skólaheimsóknir í Hollandi 2018
 • Ráðstefna í Edinborg 2019


Laun

Kjarasamningar FF og FS við ríki

Stofnanasamningur

Aðalnámskrá framhaldsskóla

Reglugerð um starfslið og skipulag framhaldsskóla

Lög um framhaldsskóla

 

Að lokum eru starfsmenn hvattir til að skoða vef skólans þar sem finna má ýmsar upplýsingar um skólann og skólastarfið, s.s. prakstískar upplýsingar, fréttir, stefnur og áætlanir ásamt skólareglum og ýmislegt varðandi nám og kennslu, www.fmos.is


Útlit síðu:Þetta vefsvæði byggir á Eplica