Stefnuyfirlýsing í náttúrufræði
Síðast breytt 27.september 2019
Í náttúrufræði í FMOS er lögð áhersla á vísindaleg vinnubrögð og að nemendur kynnist mismunandi greinum náttúruvísinda. Í áföngunum er leitast við að efla áhuga og skilning á náttúrufyrirbærum sem finnast í umhverfinu. Áfangarnir eru hugsaðir bæði fyrir nemendur sem ætla sér langt í náttúru- og raunvísindum og þá sem stefna annað en hafa áhuga á náttúrufræði daglegs lífs.
Helstu námsþættir
Í náttúrufræði grunnáfanga fá nemendur innsýn inn í ýmsar greinar náttúruvísinda, s.s. líffræði (vistfræði), efnafræði, eðlisfræði og landafræði (kortalestur). Auk þess kynnast nemendur vísindalegum vinnubrögðum, m.a. í gegnum verklegar æfingar.
Þar að auki er boðið uppá áfanga þar sem nemendur sérhæfa sig í sérhæfðari viðfangsefnum innan náttúrufræðinnar, s.s. stjörnufræði og vísindi í heimi tölvuleikja.
Kennsluaðferðir og námsmat
Í áföngunum er stuðst er við lestexta og fræðslumyndbönd en megináherslan er á fjölbreytta verkefnavinnu. Nemendur vinna ýmist einir, í pörum eða litlum hópum. Verkefnin felast m.a í að nemendur kynna sér afmarkað efni og miðla til samnemenda, skriflegum verkefnum, verklegum æfingum og vettvangsferðum. Mörgum verkefnanna ljúka nemendur í einni kennslustund en af og til vinna nemendur verkefni sem ná yfir lengri tíma. Náttúran í nærumhverfi skólans er gjarnan nýtt til að tengja námsefnið við reynsluheim nemenda.
Námsmat byggir að mestu leyti á verkefnavinnu en nemendur taka auk þess nokkur stutt skrifleg próf.