Stefnuyfirlýsing í kvikmyndafræði

Síðast breytt 27.september 2019

Markmið kvikmyndafræði í FMOS er að kynna kvikmyndafræði sem fræðigrein fyrir nemendum og þjálfa þá í ritun, heimildavinnu, kvikmyndaskoðun og gagnrýnni hugsun. Einnig er lögð áhersla á að nemendur sjái tilgang með náminu og geti notað aðferðir kvikmyndafræðinnar í öðru námi og í lífinu. Annað markmið námsins er að tengja kennsluefnið við raunveruleikann og að nemendur geti tengt efnið við sig.                   

Námið fer fram með áhorfi á valdar kvikmyndir og lestri greina, nemendur eru hvattir til að gagnrýna námsefnið og námið og taka virkan þátt í kennslunni. Haldnir eru umræðutímar, nemendur gera hópverkefni og einstaklingsverkefni, vinna að ritgerðum, stuttum umfjöllunum, kynningum, veggspjöldum, og kvikmyndaverkefnum. Áhersla er lögð á að nemendur geti unnið með heimildir, myndað sér rökstuddar skoðanir og notað kvikmyndafræðileg hugtök í röklegri og upplýstri umræðu.

Helstu námsþættir

Áfangar í kvikmyndafræði eru bæði á 2. og 3. þrepi og lögð er áhersla á vönduð og öguð vinnubrögð í ritun greina og ritgerða. Einnig er lögð áhersla á röklegar og upplýstar umræður og að nemendur þjálfist í sjálfstæðum rannsóknum í kvikmyndafræði, kvikmyndasögu og fagurfræði.

Kennsluaðferðir og námsmat

Námið byggist á áhorfi kvikmynda, lestri fræðilegra greina, samræðum og einstaklings- og hópverkefnum.

Í öllum verkefnum, hvort sem það eru skrifleg, munnleg, hóp- eða einstaklingsverkefni er lögð áhersla á vönduð vinnubrögð, meðferð heimilda, skilning, sanngjarna nálgun og röklega umræðu. Nemendur eru einnig metnir út frá þátttöku og virkni í kennslustundum.


Útlit síðu:Þetta vefsvæði byggir á Eplica