Stefnuyfirlýsing í hönnun og textíl


Þessum áföngum er ætlað að ýta undir ímyndunarafl og sköpunarhæfileika nemenda og meðvitund þeirra um fagurfræði. Vinnubrögð í listsköpun einkennast oft af sköpunargleði, frumkvæði og frumleika og því eru nemendur hvattir til að örva forvitni sína og áhuga á að leika sér með möguleika í verkefnum sínum. 

Verkefnin eru margvísleg og fara mest eftir óskum nemenda. Tímarnir eru frjálslegir og nemendur fá tækifæri til að spyrja og skiptast á skoðunum sem eykur á félagsþroska þeirra og ýtir undir jákvæð samskipti. Kennslan er eingöngu verkleg og fer fram í tímum. Engin heimavinna. Áhersla er lögð á sjálfstæð og vönduð vinnubrögð og lokafrágangur verkefna skiptir miklu máli.

Helstu námsþættir                                           

Í hönnun úr náttúruefnum er eingöngu unnið með náttúruefni úr nánasta umhverfi og áhersla lögð á tálgun. Í hönnun og blandaðri tækni er mikið unnið með endurnýtanleg efni eins og pappír, plast, gler, vír en einnig steypu, gifs og önnur efni. Skartgripahönnun byggir á skartgripagerð úr mismunandi efnum og í hönnun úr textílefnum er farið í margvísleg verkefni sem byggjast á þrykkingu, þæfingu, handsaumi og fleiru.

Fyrsta þreps áfangar: (HÖN1A03, HÖN1B03, TEX1A03). Áhersla er lögð á að virkja sköpunargáfu nemenda og finna sjálfstæði þeirra í vinnu og efnisvali. Nemendur eru þjálfaðir í að setja fram nýjar hugmyndir, meta þær og fylgja þeim eftir að fullunnu verki.

Annars þreps áfangar: (TEX2A03, HÖN2A03, HÖN2B03). Sömu hugmyndir og í fyrsta þreps áföngum nema að núna bætist við aukin áhersla á frumkvæði og frjálsræði nemenda í verkefnavali og sjálfstæði þeirra í vinnu. Ætlast er til að nemendur fari dýpra í tækni og aðferðir í verkefnavinnu og vali.

Kennsluaðferðir og námsmat

Þar sem kennslan er eingöngu verkleg er virkni í tímum mikilvæg og mæting skilyrði fyrir verkefnaskilum. Verkefnin eru í stórum dráttum ákveðin af kennara en eru mjög frjálsleg í höndum nemenda, hvort sem áhugi þeirra liggi í nytjahönnun eða skreyti. Ætlast er til að nemendur þjálfist í gagnrýnni hugsun gagnvart eigin verkum og séu meðvitaðir um nám sitt á skapandi og persónulegan hátt. 

Kennari viðheldur leiðsagnarmati í tímum og gefur umsögn fyrir verkefni og vinnu. Nemendur fá einnig tækifæri til að meta eigin verk og annarra nemenda (sjálfsmat og jafningjamat). Hugmyndavinna og skissur í hugmyndabók og ferilmöppu skilað í lok áfanga.


Útlit síðu:Þetta vefsvæði byggir á Eplica