Stutt lýsing á nýjum áföngum og áföngum utan áætlunar

Síðast breytt: 27. október 2019

Áfangarnir hér fyrir neðan verða kenndir á vorönn 2020 ef næg þátttaka fæst.

ENSK3HE05 Háskólaenska

Hér gefst nemendum tækifæri á að bæta sig í akademískum undirbúningi fyrir frekara nám. Í þessum áfanga verður lögð áhersla á að nemendur bæta við sig vísindatengdum orðaforða þeirri braut sem þeir eru á. Það er markvisst farið í að skoða greinar og annað efni sem tengist brautum. Nemendur gefst einnig tækifæri á að bæta sérsvið að eigin vali. Mikil áhersla er á sjálfstæð vinnubrögð. Lögð verður meiri áhersla á tal og flutning í töluðu máli. Þar að auki verða nemendur þjálfaðir í ritun með ýmsum verkefnum sem tengjast vísindum.

Undanfari: ENSK3MB05 og ÍSLE2ED05


ENSK3HH05 Hollywood, Humour and Happiness

Áhersla er lögð á að nemendur auki skilning sinn á mannlegum styrkleikum, trú á eigin getu, sem og mikilvægi húmors og æðruleysis í lífinu. Pælt verður í því hve gríðarlega sterkt afl Hollywood getur verið til breytinga í samfélaginu, t.d. í byltingum á borð við #metoo en líka kúgunartilburðum á borð við The Hollywood Blacklist. Nemendur eru hvattir til gagnrýni á óraunhæfar glansmyndir af ýmsum toga dregnum upp í fjölmiðlum og kvikmyndum. Kafað verður ofan í áhrif húmors til að takast á við erfið samfélagsleg mál, m.a. með því að kynnast uppistandssenunni í BNA og víðar.

Áhersla er lögð á lestur fjölbreyttra og flókinna texta, hlustunarverkefni og munnlega tjáningu með það fyrir sjónum að nemendur dýpki skilning sinn á enskri tungu, efli trú á eigin getu, þekki styrkleika sína og auki hæfni sína til gangrýninnar hugsunar. Unnið verður með rauntexta, fréttatexta, heimildarmyndir, smásögur, skáldsögu o.fl., og verður efnið túlkað út frá menningarlegu og samfélagslegu samhengi.

Undanfari: ENSK2TM05


GIML3EÍ05 Íslendingar í Vesturheimi

Í áfanganum kynnast nemendur Vesturförunum, svokölluðu. Hvað varð til þess að um fjórðungur þjóðarinnar fluttist búferlum til Vesturheims undir lok 19. aldar? Hvað var fólk að flýja? Hvernig var ferðalagið? Stóðust væntingar um betra líf? Við kynnumst lífsskilyrðum á Íslandi á 19. öld, upphafi brottflutninga og ástæðum þeirra, Íslendingaslóðum í Kanada, o.fl. Áfanginn er þverfaglegur, íslensku- og enskuáfangi. Stefnt er að því að fara í ferðalag á Íslendingaslóðir í Winnipeg í lok áfangans.

Áfanginn er kenndur á íslensku og ensku. Hugmyndin er að kynna menningararfinn, þjálfa nemendur í sjálfstæðum vinnubrögðum, heimildarvinnu, lestri bóka/greina o.fl., auka lipurð í munnlegri færni í ensku, og margt fleira.

Undanfari: ENSK2OT05 og ÍSLE2ED05


HEST2GU05 Gæðingafimi og undirbúningur fyrir keppni

Áfanginn er bæði bóklegur og verklegur þar sem farið verður ítarlega í fimiæfingar og hvernig notast á við þær til að styrkja og bæta hestinn. Í framhaldi af því verður farið í hvernig undirbúningi fyrir keppni er háttað og nemendur fræðast um hverju er verið að leitast eftir í keppni. Í bóklega hlutanum verður farið í fræðilegan grunn fimiæfinga, notkun þeirra og tilgang og farið yfir dómaraleiðarann í íþróttakeppni þar sem nemendur horfa á myndbönd til að þjálfa augað til að sjá hvað dómarar eru að meta. Í verklega hlutanum er farið í að æfa fimiæfingar í bland við gangtegundir, með það að markmiði að ná fram því besta í hestinum.

Undanfari: HEST1HE05 eða knapamerki 4


KYNJ3JF05 Jafnréttisfræði

Í áfanganum er kennd jafnréttisfræði í víðri skilgreiningu. Fjallað er um jafnréttishugtakið og það sett í samhengi við ólíkar mismununarbreytur, m.a. kynferði, kynhneigð, þjóðerni og litarhátt, trúarskoðanir, uppruna/stétt og fötlun. Skoðaðar verða birtingarmyndir mismununar, t.d. í fjölmiðlum og jafnframt hvernig einstaklingum getur verið mismunað á grundvelli fleiri en einnar breytu. Lögð er áhersla á umræður og lýðræðislega nálgun í kennslunni og að fjallað sé um stöðuna eins og hún er í samtímanum. Nemendur eru hvattir til að taka virkan þátt og hafa áhrif á efnisþætti áfangans. Stór hluti vinnunnar reynir á sjálfstæð vinnubrögð nemenda, virkni og þátttöku og auk þess byggir áfanginn á sjálfskoðun, greiningu á umhverfi sínu og umræðum um eigin viðhorf og annarra.

Undanfari: ÍSLE2ED05


LJÓS1ÁL03 Áhugaljósmyndun

Í áfanganum gefst nemendum kostur á að öðlast grunnþekkingu í atriðum sem snúa að ljósmyndatækni og úrvinnslu ljósmynda. Einnig gefst nemendum sem hafa nokkra reynslu og þekkingu af ljósmyndun tækifæri til að rækta áhugasvið sitt enn frekar. Jafnt er unnið með ljósmyndir sem fangaðar eru innan- sem utandyra.

Undanfari: Enginn


LISF2HL05 Listform, heimsálfur og menning

Áfanginn LISF2HL05 miðar að því að skoða listgreinar frá ólíkum heimshornum. Nemendur fá innsýn í listsköpun frá ólíkum menningarheimum. Þeir skoða hvernig þróun listsköpunar hefur fært okkur til póstmódernisma. Rýnt verður í listfomin þrjú: sjónlist, leiklist og tónlist. Hafðar verða umræður og vangaveltur um áhrif stjórnmála, átaka, tækni, tísku, félags- og menningarlegs samhengis á stílbrigði hverrar heimsálfu fyrir sig. Einnig verða teknir fyrir þrír íslenskir listamenn í hverri viku.

Nemendur vinna verk í anda listamanns eða heimsmenningar sem fjallað er um og bæta inn eigin túlkun.

Áhersla er lögð á tilraunavinnu þar sem unnið er í og með ólík efni og miðla. Nemendur nota skissubók og leitast við að finna óvæntar og skapandi leiðir til úrlausnar verka sinna.

Í þessum áfanga koma nemendur til með að vinna bæði inni í skólastofunni og úti í náttúrunni auk þess að fara í vettfangsferðir á sýningar og söfn. Tvær ritgerðir og ein kynning verða í þessum áfanga.

Undanfari: LISF1LI05


LÍFF3VR05 Verkleg líffræði

Áfanginn byggist á fjölbreyttum verklegum æfingum sem nemendur framkvæma, úrvinnslu niðurstaða, upplýsingaröflunar og skýrlsugerð. Markmið áfangans er að nemendur þjálfast í að tileinka sér fagleg og sjálfstæð vinnubrögð við verklega rannsóknarvinnu í líffræði, vinnslu niðurstaða með gagnrýna hugsun að leiðarljósi og dýpki samfara því þekkingu sína á því efni líffræðinnar sem æfingin tengist. Framkvæmdar verða fjölbreyttar verklegar æfingar og má þar nefna frumuskoðun, bakteríuræktun og GRAMlitun, krufningar, myglusvepparæktun, spírunaræfingu, blóðsykursmælingu og DNA einangrun. Auk þess eru fjöldi annarra æfinga sem nemendur velja í samráði við kennara hverju sinni.

Undanfari: NÁTT2GR05


MAME1KL03 Kökur og list

Áfanginn skiptist í 2 hluta þar sem myndlist og bakstur verða viðfangsefni út frá þekktum verkum úr listasögunni. Nemendur vinna málverk með akríl eða olíulitum og útfæra síðan verkefnið í hönnun/bakstur köku. Einstaklingsverkefni.

Undanfari: Enginn


MYNL2LE05 Myndlist úr endurnýjanlegum efnum

Þessi áfangi býður nemendum upp á að skapa myndverk og skúlptúra úr endurnýjanlegum efnum sem annars fara í ruslið. Efni eins og pappír, pappi, plast, ál, gler og umbúðir er hægt að nota til að skapa falleg listaverk, hvort sem þau eru tvívíð eða þrívíð. Nemendur munu vinna verkefni út frá eigin hugmyndum og eins í tengslum við hinar og þessar stefnur í listasögunni. Reynt verður að tengja viðfangsefni nemenda og verkefni við neysluvenjur fólks og afleiðingar hennar. Eins verður unnið út frá sjálfbærni og hvernig hún getur hjálpað umhverfinu í átt til betri vegar. Tímarnir eru frjálslegir og bjóða upp á afslappað andrúmsloft. Lögð verður áhersla á skapandi, vönduð og sjálfstæð vinnubrögð.

Undanfari: MYNL1GT03


NSFR2AA01 Lífið eftir útskrift

Í áfanganum er lögð áhersla á að nemendur skoði hvar áhugi þeirra liggur og ígrundi hugmyndir sínar um nám og störf svo þeir eigi auðveldara með að taka ákvarðanir sem taka mið af áhuga og löngun til ákveðins náms og/eða ákveðinna starfa.

Efnisþættir: íslenskur vinnumarkaður s.s. réttindi og skyldur, eigin hugmyndum um störf, leit að störfum og umsóknarferlið; íslenska menntakerfið s.s. iðn- og háskólanám; námsmöguleikar erlendis; eigin áhugasvið og hvert stefnir að loknu framhaldsskólanámi.

Undanfari: Hafa lokið 100 ein.


SAGA3ÁS05 Átakasvæði í heiminum

Nokkur af helstu átakasvæðum heims sem eru áberandi í fréttum á líðandi stundu eða hafa verið það undanfarin ár og áratugi. Dæmi um viðfangsefni: Borgarastyrjöldin í Sýrlandi, borgarastyrjöldin í Jemen, átökin milli Ísrael og Palestínu, deila Indverja og Pakistana um Kasmír-hérað, stríðið í Írak, átökin í austur Úkraínu og borgarastyrjöldin í Kongó.

Undanfari: SAGA2FR05/SAGA2NT05


SPIL1DD03 Dungeons and Dragons hlutverkaspil

Í þessum grunnáfanga í Dungeons & Dragons er farið í alla helstu grunnþætti spilsins. Nemendur byrja á því að læra einfaldaða útgáfu sem leggur áherslu á skapandi spilun, persónusköpun og helstu leikreglur. Í framhaldi af því er farið að spila hefbundnari útgáfu leiksins með notkun 5. útgáfu leiksins og læra nemendur að búa til eigin persónur og aðferðir við að skapa persónur og heim í samvinnu við aðra. Í kennslustundum er blandað saman æfingum og spilamennsku, auk almennrar fræðslu um sögu spilsins og áhrif þess á menninguna. Í áfanganum verður nemendum einnig gefinn kostur á að semja sína eigin útgáfu af leik og stýra öðrum sem dýflissustjóri í D&D.

Undanfari: Enginn


SPÆN1TÞ05 Spænsk tónlist, þættir og kvikmyndir

Í áfanganum þjálfast nemendur í að hlusta á spænskt tungumál og auka orðaforða í gegnum tónlist, sjónvarpsþætti og kvikmyndir. Nemendur kynnast hljómsveitum, tónlistarfólki, sjónvarpsþáttum og kvikmyndum frá ýmsum spænskumælandi löndum.

Unnið er með orðaforða og einfalda frásögn byggða á efninu. Einnig er unnið með sögu og menningu úr þáttunum og kvikmyndunum og það rætt á íslensku til að öðlast dýpri skilning á sjónvarpsefninu og því sem liggur að baki.

Undanfari: SPÆN1BY05


TÖLN1MY02 Tölvunotkun – Myndvinnsla og tölvuteikning

Í þessum grunnáfanga í tölvunotkun er farið yfir notkun á myndvinnsluforritinu Gimp og teikniforritunum Fusion 360 og Inkscape. Nemendur munu læra að hanna og prenta út með aðstoð þrívíddarprentara.

Undanfari: Enginn

 

 

 


Útlit síðu:Þetta vefsvæði byggir á Eplica