Stutt lýsing á 5 ein. listaáföngum

Síðast breytt: 27. október 2019

Áfangarnir hér fyrir neðan verða kenndir á vorönn 2020 ef næg þátttaka fæst. 

HANV1SG05 Skartgripagerð

Í þessum áfanga fá nemendur að spreyta sig á ólíkri tækni, aðferðum og efnum innan skartgripagerðar. Verkefnin verða nokkuð frjáls í höndum nemenda þar sem þeir þurfa að gera sína eigin skartgripi með tilliti til efnis, litavals og útlits. Í boði er að gera hálsfestar, armbönd, eyrnalokka, nælur og annað skart. Nemendur fá að vinna með hugmynd að fullunnu verki og sjá hana þróast í veruleika sem er mjög gefandi og þroskandi. Tilfinning fyrir listum býr í hverjum einstakling og því fá nemendur tækifæri til að virkja sköpunarkraftinn í sjálfum sér og læra að skynja umhverfi sitt betur og nýta það til listsköpunar, eins og með endurnýtanleg efni. Lögð er áhersla á skapandi, vönduð og sjálfstæð vinnubrögð.

Undanfari: Enginn


HANV2SK05 Skartgripagerð 2

Í þessum áfanga fá nemendur að spreyta sig á ólíkri tækni, aðferðum og efnum innan skartgripahönnunar. Verkefnin verða nokkuð frjáls í höndum nemenda þar sem þeir þurfa að hanna sína eigin skartgripi með tilliti til efnis, litavals og útlits. Í boði er að hanna hálsfestar, armbönd, eyrnalokka, nælur og annað skart. Nemendur fá að vinna með hugmynd að fullunnu verki og sjá hana þróast í veruleika sem er mjög gefandi og þroskandi. Tilfinning fyrir listum býr í hverjum einstaklingi og því fá nemendur tækifæri til að virkja sköpunarkraftinn í sjálfum sér og læra að skynja umhverfi sitt betur og nýta það til listsköpunar, eins og með endurnýtanleg efni. Tímarnir eru frjálslegir og bjóða upp á afslappað andrúmsloft. Lögð er áhersla á skapandi, vönduð og sjálfstæð vinnubrögð.

Undanfari: HANV1SG03


LEIR1MT05 Leirmótun

Nemendur kynnast undirstöðuatriðum í meðferð leirs ásamt þeim efnum og verkfærum sem unnið er með í keramik. Kenndar verða helstu aðferðir við mótun leirs: slönguaðferð, plötuaðferð, holun á leir og fleira.

Nemendur fá fræðslu um skreytiaðferðir, glerjun, þurrkun og brennslur. Fjallað verður um samtímahönnun og farið í sögu keramiks. Áhersla er lögð á skissu- og hugmyndavinnu í tengslum við verkefni áfangans. Einstaklingsverkefni og hópavinna.

Undanfari: Enginn


MYNL1GT05 Teikning, form og litafræði

Þessi áfangi er grunnáfangi þar sem kennd verða grunnatriði teikningar, form- og litafræði. Lögð er áhersla á að þjálfa formskilning nemenda með því að teikna einföld form svo sem kúlu, kassa, keilu og sívalning. Nemendur kynnast og læra að beita lögmálum myndbyggingar, hvernig ólík form, punktar, línur og áferð hafa áhrif á jafnvægi myndflatarins og merkingu. Í litafræðinni kynnast nemendur grundvallaratriðum í meðferð lita, þar sem þeir kanna samspil lita, virkni þeirra og áhrif.

Nemendur vinna markvisst í hugmyndabók heima þar sem þau ígrunda þau tæknilegu undirstöðuatriði sem þau hafa lært í tímum. Þau vinna einnig nokkur verkefni í bókina sem lögð eru fyrir í Innu.

Nemendur útbúa eina kynningu á verkefni þar sem þau taka fyrir nauðsyn þess að læra teikningu eða litafræði. T.d. arkitektúr, fornleifafræði, verkfræði, málarar, hárgreiðslu.

Módel: Nemendur þjálfa notkun á tækni til mælinga og hæfileikann til að umbreyta þrívíðu formi í tvívíða teikningu. Þeir nota til þess sjónskilning og sjónminni. Stærðfræði mannslíkamans og fagurfræði hans verður túlkuð og þjálfuð. Teiknað verður eftir lifandi fyrirmynd og myndum. Nemendur nota misstór blöð, viðarkol, krít og blýant.

Módel kemur einu sinni á skólaári annað hvort á haustönn eða vorönn og þá fara allir myndlistaáfangar í módel.

Undanfari: Enginn


MYNL2ET05 Form, þrívídd, efnis- og myndbygging

Í þessum áfanga er lögð áhersla á að nemendur efli næmi sitt fyrir myndbyggingu á tvívíðum fleti. Þeir kynnast klassískum lögmálum myndbyggingar og kanna myndflötinn; hvernig eðli hans breytist eftir því hvernig form skipta honum upp og hafa áhrif á jafnvægi hans. Kannaðar verða stærðir og hlutföll forma í rými. Nemendur vinna síðan verk frá tvívíðu formfræði yfir í þrívídd. Kannaðar eru mismunandi aðferðir og eftirfarandi efnisatriði/kjarnahugtök kynnt: Punktur, lína, flötur, rými, hæð, lengd, breidd,dýpt, tími, tvívíð form, þrívíð form, náttúruform, stærðfræðileg form, samræmi, jafnvægi, speglun, hrynjandi, endurtekning, jákvæð form, neikvæð form, áferð, uppsetning, litir.

Nemendur vinna markvisst í hugmyndabók heima þar sem þau ígrunda þau tæknilegu undirstöðuatriði sem þau hafa lært í tímum. Þau vinna einnig nokkur verkefni í bókina sem lögð eru fyrir í Innu.

Nemendur útbúa (2 saman) kynningu á íslenskum Höggmyndalistamanni fyrir samnemendur sína.

Módel: Nemendur þjálfa notkun á tækni til mælinga og hæfileikann til að umbreyta þrívíðu formi í tvívíða teikningu. Þeir nota til þess sjónskilning og sjónminni. Stærðfræði mannslíkamans og fagurfræði hans verður túlkuð og þjálfuð. Teiknað verður eftir lifandi fyrirmynd og myndum. Nemendur nota misstór blöð, viðarkol, krít og blýant.

Módel kemur einu sinni á skólaári annað hvort á haustönn eða vorönn og þá fara allir myndlistaáfangar í módel.

Undanfari: MYNL1GT03


TEXL1TE05 Handverk og listsköpun

Nemendur læra að virkja sköpunarkraftinn í sjálfum sér og temja sér aðferðir til að skynja umhverfi sitt og nýta það til listsköpunar. Nemendur eru þjálfaðir í að setja fram hugmyndir sínar á skipulagðan hátt, vinna með sambandið milli hugmynda, hráefnis, tækni, aðferða, listrænnar sköpunar, greiningar og túlkunar. Þetta er blandaður áfangi þar sem nemendur fá að spreyta sig á ólíkri tækni og aðferðum. Verkefni verða nokkuð frjáls í höndum nemenda hvar sem áhugi þeirra liggur. Áhersla er lögð á sjálfstæð vinnubrögð og nemendum ber að skila ferilmöppu í lok áfangans. Nauðsynlegt er fyrir nemendur að hafa aðgang að myndavél. Hugmyndabók og myndavél mun fylgja nemendum í gegnum áfangann.

Undanfari: Enginn


Útlit síðu:Þetta vefsvæði byggir á Eplica