LÍFF3VR05 - Verkleg líffræði

Verkleg líffræði

Einingafjöldi: 5
Þrep: 3
Forkröfur: NÁTT2GR05
Meginviðfangsefni áfangans eru verklegar æfingar. Líffræðin eða lífvísindi er fræðigrein sem fjallar um lífið í sem fjölbreyttustu mynd, allt frá hinum smæstu lífefnasameindum til flókinna vistkerfa. Í þessum áfanga er lögð áhersla á fjölbreyttar verklegar æfingar og reynt að koma inn á sem flestar undirgreinar líffræðinnar og taka þannig þverskurð af líffræðinni í sem fjölbreyttastri mynd. Út frá hverri verklegri æfingu er tekið fyrir kennsluefni sem tengist efni æfingarinnar sem nemendur eru að vinna með hverju sinni. Niðurstöður eru síðan teknar saman í skýrslu. Markmið áfangans er að nemendur öðlist aukna færni, sjálfstæði og vandvirkni í verklegum vinnubrögðum á sem breiðustu sviði innan líffræðinnar og að þeir temji sér vönduð, vísindaleg vinnubrögð með gagnrýna hugsun að leiðarljósi. Þær verklegu æfingar sem nemendur framkvæma geta verið breytilegar milli ára en þó framkvæma allir nemendur frumuskoðun, sveppaæfingu, sýnatöku og ræktun baktería, skoðun og greiningu frumvera og kryfja lífveru auk fleiri æfinga sem nemendur velja í samráði við kennara.

Þekkingarviðmið

 • vísindalegri aðferðafræði
 • mikilvægi vandaðra og nákvæmra vinnubragða við framkvæmd verklegra æfinga
 • hlutverki smásjár og víðsjár
 • mikilvægi gagnrýninnar hugsunar við túlkun rannsóknarniðurstaða
 • ólíkum frumugerðum lífvera
 • gerð og vaxtarskilyrðum baktería, sveppa og frumvera og mikilvægi þeirra í vistkerfum
 • helstu verklagsreglum sem beitt er við krufningu lífvera

Leikniviðmið

 • setja upp vísindalega rannsókn byggða á vísindalegri aðferðafræði
 • fylgja verklagsreglum á ábyrgan og sjálfstæðan hátt
 • útbúa smásjársýni og lita
 • taka sýni og setja upp bakteríuræktun
 • nota smásjá og víðsjá
 • beita réttum verklagsreglum við krufningu lífvera
 • þekkja mun á helstu frumugerðum lífvera

Hæfnisviðmið

 • geta sýnt sjálfstæði og beitt gagnrýnni hugsun
 • geta dregið ályktanir af rannsóknarverkefni með rökstuddum niðurstöðum
 • geta unnið með öðrum til að leysa flóknari viðfangsefni
 • geta unnið nákvæmar og vandaðar skýrslur með vísindalega aðferðafræði að leiðarljósi
 • greina á milli ólíkra frumugerða
 • greina og flokka helstu gerðir baktería, sveppa og frumvera
Nánari upplýsingar á námskrá.is