LÍFF3VS05 - Líffræði í kvikmyndum og sjónvarpsþáttum

Vísindaskáldskapur

Einingafjöldi: 5
Þrep: 3
Forkröfur: LÍFF2LM05 OG LÍFF2GD05 (LÍF2A05/LÍF2B05)
Líffræðin kemur víða fram í kvikmyndum og sjónvarpsþáttum og áhugavert getur verið að kafa dýpra inní hin ýmsu viðfangsefni sem þar eru tekin fyrir. Margt má læra af þessum miðli en oft er áherslan frekar lögð á skemmtanagildið heldur en vísindalegar staðreyndir. Í þessum áfanga verða kvikmyndir sem taka fyrir ýmis líffræðileg viðfangsefni teknar fyrir og þær greindar á fjölbreyttan hátt. Meginhugmyndin er að nemendur greini og gagnrýni hvernig líffræðin kemur fyrir og hvort rétt sé farið með vísindalegt efni auk þess sem litið er til þess lærdóms sem má af þeim draga. Horft verður á kvikmyndir og þætti í kennslustundum auk þess sem nemendur eiga að greina efni sem þeir ákveða sjálfir. Mikil áhersla verður lögð á að nemendur sýni gagnrýna hugsun í allri greiningu og vinnu í kringum efnið og stundi sjálfstæða heimildaleit og úrvinnslu efnis (af veraldarvefnum o.s.frv.). Nemendur verða beðnir um að halda dagbók út alla önnina þar sem þeir eiga að skrifa um hverja þá kvikmynd og þátt sem sýnd verður auk þess sem þeir fjalla um annað tengt efni sem þeir horfa á á hverjum degi. Umræður skipa stóran sess í náminu auk þess sem nemendur munu vinna stór og smá verkefni ýmist einir eða í hópum úr ýmsum viðfangsefnum tengdum því afþreyingarefni sem horft verður á. Margs konar efni verður til sýningar í áfanganum og má þá helst nefna: Kvikmyndir sem byggja á vísindaskáldskap en vísindaskáldskapur er vinsælt viðfangsefni kvikmynda. Þar eru sögur sagðar sem byggja á vísindum og oft tækni framtíðarinnar. Líkt og heitið gefur til kynna eru sci-fi kvikmyndir oft að miklu leyti skáldskapur sem byggir ekki á raunverulegum lögmálum en þó er mikilvægt að sagan sé byggð á gildum lögmálum innan vísindaheimsins. Kvikmyndir sem varpa ljósi á ýmis heilbrigðistengd málefni. Teiknimyndir sem byggja á ákveðnu tímabili í lífssögunni eða á atferli ákveðinnar dýrategundar. • Þættir þar sem líffræðin er notuð til þess að leysa hina ýmsu glæpi.

Þekkingarviðmið

  • því hvernig líffræðin birtist í kvikmyndum og þáttum
  • möguleikum þessa miðils sem fræðilegum vettvangi
  • ýmsum líffræðilegum hugtökum og aðferðum sem tengjast því efni sem farið verður í
  • mikilvægi gagnrýninnar hugsunar við áhorf afþreyingarefnis
  • áhrifum líffræðilegs efnis á vísindaþekkingu í samfélaginu

Leikniviðmið

  • lesa og meta líffræðilegar upplýsingar úr máli og myndum
  • finna og nota áreiðanlegar heimildir til þess að vinna verkefni og mynda rökstudda skoðun
  • gera skipulega grein fyrir sínum skoðunum og viðhorfum til efnisins
  • nýta líffræðilegt efni til þess að búa til eigið afþreyingarefni

Hæfnisviðmið

  • greina, hagnýta og meta upplýsingar í töluðu eða rituðu máli
  • beita gagnrýninni hugsun við vinnu sína
  • sýna sjálfstæði í vinnubrögðum
  • vinna með öðrum til að leysa flóknari viðfangsefni
  • skiptast á skoðunum við aðra um ýmis álitamál og gera grein fyrir eigin hugmyndum og verkum á skilmerkilegan hátt í mæltu máli og myndrænt
Nánari upplýsingar á námskrá.is