Móttaka nýrra nemenda

Síðast breytt: 21. nóvember 2012

Innritun

Nemendur innrita sig í skólann í gegn um vefinn http://www.menntagatt.is/.

Kynningarfundur

Nýir nemendur í skólanum eru boðaðir á kynningarfund í byrjun annar. Þar fá nemendur upplýsingar um skólastarfið ásamt kynningu á húsnæði. Í upplýsingabæklingnum Klöru, sem er á vef skólans, eru handhægar upplýsingar um skólastarfið.

Umsjón

Allir nemendur yngri en 18 ára fá umsjónarkennara sem er trúnaðarmaður hans gagnvart skólanum og heldur utan um mál hans; námsframvindu og ástundun ásamt því að benda á úrræði ef um náms- eða tungumálaörðugleika er að ræða. Umsjónarkennari er tengiliður milli foreldra/forráðamanna og skólans. Umsjónarkennari boðar nemanda í einstaklingsviðtal tvisvar sinnum á önn, á fyrstu vikum annarinnar og eftir miðannarmat. Umsjónarkennarinn og nemandi skipuleggja val nemandans fyrir næstu önn í sameiningu á valdögum sem haldnir eru einu sinni á önn.

Nemendur hitta umsjónarkennara sinn í upphafi annar þar sem þeir kynnast kennslukerfi skólans, Innu (Inna: nemendur), kennsluháttum skólans, námsmati og verkefnaskilum.

Áfangi fyrir nemendur sem eru að koma beint úr grunnskóla

Í áfanganum ÉSS, Ég, skólinn og samfélagið, er stuðlað að styrkingu félagstengsla milli nemenda. Viðfansgefni áfangans styrkja nemendur til að takast á við krefjandi nám og leggja þannig grunn að frjóu menntasamfélagi. Nemendur fara í ferð á haustönn. Tilgangur ferðarinnar er að hrista nemendur saman og þeir fái tilfinningu fyrir skólabrag FMOS. Allir nýnemar skólans fara í þennan áfanga sem nær yfir fyrstu tvær annir skólagöngunnar í FMOS.

 _________________________

Viðbótarúrræði fyrir nemendur með íslensku sem annað mál

Móttökuviðtal

Eftir innritun hefur námsráðgjafi samband við nemanda og  foreldra eða forráðamenn sé nemandi yngri en 18 ára og býður upp á viðtal. Markmið viðtalsins er að kynna  nemandann og foreldra eða forráðamenn þeirra sem eru undir 18 ára aldri fyrir skólanum, starfsemi hans, skólareglum og náminu. Upplýsinga er aflað um námsstöðu nemanda og hvaða fyrirætlanir hann hafi varðandi námið. Auk þess er lögð rík áhersla á að kynnast nemandanum. Í kjölfar viðtalsins er útbúin áætlun sem byggir á niðurstöðum viðtalsins. Þegar hún er tilbúin er hún kynnt nemanda og foreldrum eða forráðamönnum þeirra sem er undir 18 ára aldri.

Íslenskukennsla

Nemendur sem hafa annað móðurmál en íslensku fá kennslu í íslensku sem öðru tungumáli. Kennslan er skipulögð út frá einstaklingsáætlun þeirri sem unnin er í samráði við námsráðgjafa. Samhliða þjálfun í íslensku máli skal fara fram kynning á íslenskri sögu og menningu. Kennsla þessi skal fara fram í sérstökum kennslustundum og verkefnatímum.  Í verkefnatímum gefst nemendum kostur á að vinna heimanám í öllum námsgreinum undir handleiðslu íslenskukennara í samráði við viðkomandi námsgreinakennara.

Umsjón og skipulag

Umsjónarkennari fylgist skipulega með námframvindu nemandans eins og annarra nemenda og er trúnaðarmaður hans gagnvart skólanum. Umsjónarkennari grípur inn í ef námsframvinda, mætingar eða félagsleg aðlögun nemandans gengur ekki sem skyldi og hefur samráð við námsráðgjafa um leiðir til úrbóta.  Ef nemendur þurfa á túlki að halda mun skólinn sjá um að útvega þá þjónustu. 


Útlit síðu:Þetta vefsvæði byggir á Eplica